SÆKJA APPIÐ UM SÍÐUNA FRÆÐSLA MÍNAR UPPSKRIFTIR INNSKRÁNING

LEIT
ExpandDIV
TEGUND RÉTTAR
ExpandDIV
ERFIÐLEIKASTIG
ExpandDIV
Auðvelt Erfitt
ELDUNARTÍMI
ExpandDIV
Fljótlegt Tímafrekt
Eldunaraðferð
ExpandDIV
UPPRUNI
ExpandDIV
HLUTI
ExpandDIV

Íslenskt lambakjötHverjir borða lambakjöt?


Lambakjöt er borðað víða um heim; sumstaðar er það veislumatur sem sjaldan er á borðum, sumstaðar er það langalgengasta kjötið og er nærri daglega á borðum. Það er til dæmis mjög mikið borðað í víða á Balkanskaga og í Grikklandi, Tyrklandi og Austurlöndum nær, Norður-Afríku og á Norður-Indlandi. Þar er kjötið annaðhvort hægsteikt, grillað, oft í bitum á teini en stundum einnig í heilum skrokkum, eða soðið í pottréttum, oft mjög krydduðum. Kjötið er gjarna kryddað með kóríander, kummini, oregano og ýmsum karríkryddblöndum. Ástralir og Nýsjálendingar eru einnig miklar lambakjötsætur og þeir gera t.d. mjög mikið af því að grilla kjötið.

Kjöt af kindum og lömbum hefur verið borðað frá ómunatíð en framan af var um villifé að ræða. Þó er sauðkindin eitt alfyrsta húsdýr mannsins og bæði í Írak og Rúmeníu hafa fundist traustar vísbendingar um að menn hafi þar verið farnir að temja sauðfé fyrir um ellefu þúsund árum. Sauðkindin var raunar upprunalega fremur tamin vegna ullar og mjólkur en vegna kjötsins. Hún er líka þolgóð skepna sem getur lagað sig að fjölbreyttum aðstæðum og því er sauðfé ræktað um víða veröld.

Gyðingar borðuðu mikið af lambakjöti og það er mjög oft nefnt í Biblíunni. Þeir höfðu einfalda aðferð til að taka manntal í landi sínu: Þeir töldu lömbin sem slátrað var fyrir páskahátíðina og margfölduðu með tíu, því hvert lamb var steik sem dugði tíu manns. Lömb voru mjög algeng fórnardýr, bæði hjá Ísraelsmönnum, Grikkjum, Rómverjum og mörgum öðrum fornum þjóðum. Enn tíðkast með mörgum kristnum þjóðum að borða lambakjöt á páskum. Heilsteikt eða heilgrilluð lömb eru víða borin fram í brúðkaupsveislum og önnur hátíðleg tækifæri.

Mjög mikið er til af spennandi lambakjötsréttum t.d. frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu, Norður-Afríku og Miðausturlöndum, Mið-Asíu, Indlandi og Pakistan, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, svo og frá Mið- og Suður-Ameríku og mörgum fleiri löndum og má finna úrval slíkra uppskrifta hér.

Hvers vegna er íslenskt lambakjöt svona gott?


Margir þættir hafa áhrif á bragð og gæði lambakjöts, svo sem kyn lambsins, aldur, fæðan sem það hefur fengið, slátrunin sjálf og meðferð eftir slátrun. Íslensk lömb eru yfirleitt 4-5 mánaða og farin að bíta gras en ganga þó oftast enn undir mæðrum sínum þegar kemur að slátrun. Þau hafa í flestum tilvikum gengið á heiðum, fjöllum eða í úthögum og etið villijurtir og það kemur fram í bragðinu; sumir segja að íslenska lambakjötið „kryddi sig sjálft”. Sumstaðar erlendis er lömbum jafnvel lógað fárra vikna gömlum, einkum þar sem ær eru mjólkaðar, og er kjötið þá sérlega ljóst og meyrt en um leið bragðmilt, eins og kjöt af mjólkurkálfum.


Íslenskt lambakjöt þykir fremur bragðmilt og það er að hluta til vegna þess að víða erlendis eru lömbin orðin mun eldri þegar þeim er slátrað og kjötið af þeim er bragðsterkara – oft hálfgert „ullarbragð”, sem getur stafað bæði af aldri lambanna og því fóðri sem þau hafa fengið. Útlendingar sem vanir eru slíku kjöti verða oft undrandi þegar þeir bragða íslenska lambakjötið og tala um hve bragðgott og milt það sé. Sumt af því sem selt er sem lambakjöt erlendis er í rauninni af fullorðnu, ef miðað er við íslenska staðla – einhvern tíma hefur verið sagt að í Bandaríkjunum sé kjöt af fullorðnu (mutton) ófáanlegt en þar séu elstu lömb í heimi.
Ekki má gleyma því að íslenskt lambakjöt er laust við hormóna og sýklalyf, öfugt við lambakjöt í ýmsum öðrum löndum. Allt kjöt er skoðað af dýralæknum og slátrun og kjötvinnsla er undir ströngu gæðaeftirliti.