SÆKJA APPIÐ UM SÍÐUNA FRÆÐSLA MÍNAR UPPSKRIFTIR INNSKRÁNING

LEIT
ExpandDIV
TEGUND RÉTTAR
ExpandDIV
ERFIÐLEIKASTIG
ExpandDIV
Auðvelt Erfitt
ELDUNARTÍMI
ExpandDIV
Fljótlegt Tímafrekt
Eldunaraðferð
ExpandDIV
UPPRUNI
ExpandDIV
HLUTI
ExpandDIV

Aðgát við grilliðTil eru þeir sem halda því fram að magakveisur og skot séu bara eðlilegur þáttur í grillmenningu Íslendinga – nánast sjálfsagður hluti af sumarstemmningunni – og virðast ekki telja neina sérstaka ástæðu til að viðhafa sérstakt hreinlæti og aðgát við grillið. Þeir um það. Við hin, sem langar ekkert til að leggjast í magapest í sumar, þurfum hins vegar að hafa eitt og annað í huga til að forðast sýkingar og kveisur.

Reyndar er ekki mjög algengt að lambakjöt valdi matareitrunum, þar eru aðrar kjöttegundir mun varasamari. Þeir sýklar sem algengast er að valdi matareitrun í grillmat eru kampýlóbakter, salmonella og E.-coli (saurgerlar). Algengast er að hinir tveir fyrrnefndu finnist í kjúklingum þótt þeir geti vissulega fundist víðar en saurgerlasýkingar tengjast mjög gjarna hökkuðu kjöti.

Alla rétti úr hakki er nauðsynlegt að steikja í gegn, þannig að ekki sjáist bleikur litur í miðju og allur safi sem rennur úr kjötinu á að vera tær. Hvað varðar rautt, óhakkað kjöt er þetta ekki jafnmikilvægt, þar sem sýklarnir berast yfirleitt í kjötið við slátrun og meðhöndlun og eru því eingöngu eða fyrst og fremst á yfirborðinu. Þetta kjöt má því vera bleikt í miðju og lamba- og nautakjöt má jafnvel vera vel rautt.

· Ef kjötið er keypt frosið eða tekið úr frysti þarf að gæta þess að það hafi náð að þiðna til fulls áður en það er sett á grillið. Kjöt sem enn er frosið eða ískalt í miðju grillast oft ójafnt og hætt er við að það brenni að utan áður en það nær að hitna nægilega í gegn.

· Kjöt grillast jafnar ef það er ekki tekið beint úr kæli, heldur látið ná nokkurn veginn stofuhita áður en það er sett á grillið, en þess verður þó að gæta vel að það bíði ekki lengi við stofuhita eða í heitu veðri utandyra. Slíkt skapar kjöraðstæður fyrir sýkla.

· Hrátt kjöt á aldrei að snerta mat sem búið er að elda eða á ekki að elda. Aldrei má leggja slíkan mat á borð, bretti eða fat sem hrátt kjöt hefur legið á, nema þvo það vel áður, né nota hnífa og önnur áhöld sem notuð hafa verið á hrátt kjöt.

· Í hvert sinn sem maður hefur snert hrátt kjöt þarf að þvo hendurnar vel á eftir. Sumum finnst kannski of mikið vesen að vera alltaf að hlaupa inn til að þvo sér en krossmengun frá hráu kjöti yfir í önnur matvæli er oft það sem veldur alvarlegustu sýkingunum.

· Grillið þarf að vera orðið vel heitt áður en kjötið er sett á það. Best er að snúa kjötinu oft og færa það til á grindinni svo að það grillist jafnt. Aldrei á að láta hrátt kjöt snerta full- eða hálfgrillað kjöt.

· Kjötið er ekkert endilega steikt í gegn þótt það sé farið að brenna að utan. Best er að hafa hitann jafnan og meðalháan, fremur en grilla við of háan hita svo að kjötið brenni fljótt.

· Ef kjötið hefur legið í kryddlegi eða sósu má ekki bera löginn eða sósuna fram með kjötinu á eftir nema sjóða hann fyrst rösklega í nokkrar mínútur. Ekki á heldur að pensla kjötið rétt áður en það er tekið af grillinu með kryddlegi sem það hefur legið í.

· Ef verið er að grilla mikið magn í einu getur verið góð lausn að byrja innandyra og steikja kjötið til hálfs eða meira í ofninum en ljúka síðan eldamennskunni á grillinu til að fá bragðið. Þetta flýtir fyrir, sparar tíma og dregur úr hættu á krossmengun.